Hvannadalshnúkur

Vegna veðurs var ákveðið að fresta ferð á Hvannadalshnúk um óákveðinn tíma. Við ættluðum að fara af stað kl 4:30 laugardaginn 3. maí. Vonandi næst að smala saman í hóp seinna í sumar.

5. Æfingaferð - Baula

Í gær (26.4.08) gekk ég á Baulu í Borgarfirði í annað skifti. Ég lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli kl 7:10. Stutt bensínstopp í Borgarnesi. kl 9:10 hitti ég Helga Þór og Magnús bróður minn við Búðardalsafleggjarann. Þeir höfðu lagt af stað frá Húnabúð, björgurnarsveitarhúsinu á Hvammstanga rúmlega 8. Við keyrðum áleiðis eftir fyrrnefndum afleggjara og fundum okkur fljótlega stað til uppgöngu. Kl 9:36 voru allir klárir og þá var gengið af stað í átt að Baulu. U.þ.b. tveggja kílómetra ganga er að fjallinu. Fjallið sjálft er stórgrýtt og veltum við því fyrir okkur hvort þetta væri einn haugur af grjóti. Vindurinn blés hraustlega á okkur. Kl 12:05 var toppnum náð. Skyggnið var frekar takmarkað vegna skýja. Á niðurleiðinni voru gerðar nokkrar tilraunir til að renna sér á sköflum, en þeir reyndust flestir of brattir og harðir svo skynsamlegt væri að nota þá. Við gátum ekki flýtt mikið fyrir okkur á niðurleiðinni í þessu stórgrýti og stundum ættlaði vindurinn að feykja manni um koll. Kl hálf þrjú vorum við komnir aftur að bílunum. Þá skildu leiðir, Helgi og Magnús fóru aftur norður og ég suður. Þetta var síðasta fjallgönguæfing okkar fyrir Hvannadalshnúk, en við stefnum á að fara á Hnúkinn laugardaginn 3. maí.

4. Æfingaferð - Helgafell

Sumardaginn fyrsta (24.4.08) fór ég á Helgafell ofan við Hafnarfjörð. Ég lagði bílnum á bílastæðinu ofan við Kaldársel og gekk þaðan kl 15:50. fyrst gekk ég eftir stikaðri slóð sem liggur í suður hægra megin við fellið. Þar hitti ég fólk sem ég hjálpaði við að finna hund sem það hafði fengið að láni. Áfram hélt ég göngunni og stoppaði við skilti sem sagði mér að ég væri í Skólalundi. Ég fór sömu leið til baka og rölti upp á tvo hóla sem urðu á vegi mínum sem samkvæmt korti heita Óbrynnishólar. Um kl fimm var ég farinn að nálgast fellið og leita að uppgönguleið. Ég fór upp frá Suð-Vestri sam var alls ekki leiðinleg leið. Á toppnum sem er 340m hár er gestabók sem ég skrifaði að sjálfsögðu í. Greinilega högðu margir verið þarna á ferðinni fyrr um daginn. Skyndilega dundi á mér haglél sem mér fannst ekki beint viðeigandi miðað við daginn. Ég valdi aðra leið niður en upp, þ.e.a.s tók stefnuna í Norð-Vestur, en þetta er hefðbunda leiðin. Það rigndi á mig alla leiðina niður. Leiðin báðar leiðir tók ca. tvo tíma með stoppi. Hressandi ferð þrátt fyrir ýmis sýnishorn af veðri.

3. æfingaferð - Jörundarfell

Fór í gær (19.4.08) á Jörundarfell með Helga Þór. Við vorum mættir kl 8 í Húnabúð. Korter fyrir 9 vorum við búnir að græja okkur og lögðum af stað. Rétt sunnan við Hjallaland í Vatnsdal lögðum við bílnum og röltum af stað kl 9:36. Stefnan var tekin í suðaustur. Upphaflega var gert ráð fyrir að fylgja klettabelti fyrir ofan okkur og ganga meðfram því til suðurs uns við kæmumst fyrir það og taka svo stefnuna í norður í átt að fellinu. Við ákvaðum hinsvegar að reyna að stytta okkur leið með því að klifra í klettum og snjósköflum. Það tókst alveg ágætlega og var miklu skemmtilegra en auðvelda leiðin. Nokkrum sinnum héldum við að toppurinn væri framundan, en eins og svo oft þá er hærri toppur handan við hæðina. Síðasti hlutinn var ganga eftir snjóskafli og toppurinn var allur hulinn snjó. Ferðin upp tók þrjá tíma og þrjú korter. Áður en við fórum niður skelltum við okkur í utanyfirgalla því framundan voru nokkrir snjóskaflar sem við notuðum óspart til að renna okkur, sem var alls ekki leiðinlegt. Ferðin niður tók ekki nema tæplega tvo tíma. Veðrið á leiðinni hafði verið ágætlega þægilegt til göngu, stillt veður en sólarlaust. Það var ekki fyrr en við vorum hálfnaðir á leiðinni niður að sólin lét sjá sig. Rétt fyrir fimm vorum við aftur komnir til Hvammstanga eftir vel heppnaða ferð.


Hæð 1088 m

Uppgöngutími 3:45 klst. Niðurleið 1:50 klst.

Gönguhækkun1070 m.

Göngulengd 5-6 km

(myndir í möppunni Jörundarfell)

Jörundafell 18.4. Mynd: GÖJ


2. æfingaferð - Tröllakirkja

Ef keyrt er norður yfir Holtavörðuheiði er fallegt fjall á vinstri hönd efst á heiðinni. Þetta fjall heitir Tröllakirkja. Það er 1001 metra hátt. Þrjár sýslur mætast á toppnum. Að vestan er Dalasýsla, að sunnan Mýrarsýsla og að norðan er Strandasýsla. Ég rölti upp á þetta fjall í gær ásamt fleirum.

 

15.3.2008

Dagurinn birjaði kl 7 þegar vekjarinn í símanum vakti mig. Næst var að hella upp á kaffi fyrir daginn og fá sér ristað brauð. rúmlega hálf átta var allt klárt til að leggja af stað. Það var óvenju þægilegt að keyra til Reykjavíkur þar sem að umferðin var alveg í lágmarki. Ég var ekki nema 30 mínótur að komast í Ártúnsbrekkuna sem er persónulegt met. Stutt nestisstopp í Borgarnesi. Ég tók eftir að vegurinn í gegnum Borgarnes er ekki alveg eins og hann er vanur að vera. Færið á heiðinni var gott fyrir utan hálkubletti.

Rétt norðan við þar sem sæluhúsið var hitti ég svo ferðafélagana. Pési var kominn á Patrol frá björgunarsveitinni Húnum með fjóra unglinga með sér úr unglingadeildinni. Planið var að var að fara af stað kl 10 en við töfðumst aðeins, meðal annars þurfti að fara og losa ónefndan jeppaeiganda frá Hvammstanga sem hafði fest sig þar sem sæluhúsið var. Við gengum af stað kl 10:40. Snjór var yfir öllu svo við sukkum í hverju skrefi. Þetta var því frekar seinlegt og erfitt færi. á stöku stað virtist snjórinn ættla að halda en það var aldrei lengi. Það er drjúgur gangur að fjallinu áður en miklar hæðarbreytingar verða, en vegalengdin upp á topp frá vegi er 5 - 6 km. þegar brattinn fór að aukast þurfti að fjölga stoppum til að hafa orku alla leið. Einnar mínótú stopp getur haft ótrúlega mikið að segja.

Stefnt var í skarðið sunnan við hæðsta toppinn. Eftir nokkrar pásur með orkudrykkjum og súkkulaði komumst við upp á hrygginn í skarðinu. Þá fengum við útsýni til vesturs m.a. til Baulu. Við gengum eftir hryggnum í norður. Á hægri hönd var snarbratt niður. Svo loks var toppnum náð eftir fjögurra tíma göngu og 700m hækkun. Útsýnið var mjög gott þarna uppi. Það var borðað nesti og teknar myndir eins og venja er í svona ferðalögum.

Þá var ekkert annað að gera en að koma sér niður aftur. Við stefndum suð-austur af fjallinu og renndum okkur niður bratta brekku á fleygiferð. Þetta var alveg stórskemmtilegt og allir voru sammála um að þetta hafi verið erfiðisins virði. Svo var þrammað áfram niður brekkurnar og á miðri leið fundum við slóðina okkar. Rúmlega 6 vorum við aftur komin í bílana. Ferðin hafði því samtals tekið 7,5 klst. Veðrið lék við okkur allan tímann með sól, hægum vindi og smá frosti. Mjög góð ferð og allir sáttir.

Af af því að stutt var til Hvammstanga ákvað að skreppa til mömmu og pabba í mat og sturtu. Rúmlega 9 lagði ég svo af stað til Keflavíkur og var kominn þangað um miðnættið. Alveg prýðisgóður dagur hjá mér.

(Myndir í möppunni Tröllakirkja)


1. æfingaferð - Keilir

Í gærkvöldi tók ég fyrstu æfingu fyrir Hvannadalshnúk. Ég ákvað að fara aftur á Keili. Um hálf sjö lagði ég af stað frá bílnum. Greinilega var stutt síðan fólk hafði verið þarna á ferðinni því þarna var mikið af sporum. Veðrið var fínt, hægur vindur og ekki mjög kalt. U.þ.b. klst síðar stóð ég á toppnum. Eftir að hafa skrifað í gestabókina fór ég fljótlega niður aftur. Það hafði snjóað svo það veitti mér mikla öryggistilfinningu að hafa ísöxini með þegar ég var að fara niður skaflana. Ég var reyndar með mannbrodda í bakpokanum ef það skyldi vera klaki, en það var ekki þörf á þeim. Þegar bíllinn var fundinn var komið myrkur. Himininn skartaði norðurljósum stjörnum og tungli. Loks keyrði ég til baka eftir hressandi kvöldgöngu.

Undirbúningur fyrir Hnúk

Nú fer að styttast í að maður fari að undirbúa sig fyrir göngu á Hvannadalshnúk, en áættlunin gerir ráð fyrir að helgin 2. - 4. maí verði notuð og væntanlega laugardagurinn 3. maí til uppgöngu. Ég er búinn að smala nokkrum með mér í hóp þ.a.m. Pésa og fleiri görpum, trúlega verðum við á          bilinu 5 - 7 manns sem förum,

Fyrra skiptið fór ég vorið 2002 með Gumma Jóh, en þá vorum við báðir í björgunarsveitinni Káraborg (Húnum núna). Einnig voru með í för 3 svisslendingar, 2 karlar og ein kona. Þetta var ferð á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Uppgöngutíminn var 7,5 tími og heildar göngutími 13 tímar.

Undirbúningur hjá mér núna verður aðallega göngur á önnur fjöll eins og síðast, því það er sagt vera besta þjálfunin fyrir fjallgöngur að ganga á fjöll. Í þetta sinn ættlum við að græja þetta sjálfir án utanaðkomandi leiðsagnar. Þetta er bara spennandi og alltaf gaman að hafa eitthvað til að stefna að.


Tveir menn og einn hundur - á skíðum

Ég skrapp á Hvammstanga í gær. Í dag fórum við feðgar á skíði. Um hálf tólf vorum klárir, svo við örkuðum af stað  frá Garðavegi 23. Hundurinn Baldur var staddur á Garðavegi 19 svo mér datt í hug að bjóða honum með. Hann þáði það með þökkum. Ég þorði ekki öðru  en að hafa hann í bandi á leiðinni út af staðnum. Ég vildi ekki eiga það á hættu að hann færi að flaðra upp um fínar frúr eða aðra saklausa vegfarendur sem við mættum. Það var reyndar bara fínt fyrir mig að hafa hann í bandi því hann dró mig á fleygiferð í gegnum staðinn. Svo sleppti ég honum lausum við sláturhúsið.

Fyrir utan Lindarberg mættum við hlaupara. Pabbi fór strax að kalla á Baldur svo hann myndi ekki trufla hlauparann sem er ekki hár í loftinu og hefði getað kastast út fyrir veg ef baldur hefði stokkið á hann á fullri ferð. Þegar við svo mættum honum fannst mér hann vera frekar skrýtinn á svipinn, enda hefur hann sennilega ekkert skilið í þessum hrópum og köllum í föður mínum. Hann heitir nefnilega líka Baldur. Skíðafærið var ekkert til að hrópa húrra fyrir en þetta svona rétt slapp. Skyggnið var ekki mikið. Við Kárastaði hittum við Guðmund Vil sem sagði okkur að hann ættlaði að keyra Vatnsneshringinn á olíubílnum sínum, víst að færið væri svona gott. Við höfðum ekkert við það að athuga og skíðuðum áfram.

Það er ótrúleg orka í hundinum Baldri. Hann getur hlaupið allt í kringum okkur á meðan við göngum án þess að blása úr nös. Þegar við vorum komnir aðeins út fyrir Kárastaði fannst föður mínum nóg komið og pantaði bíl. Þannig að við snérum við en mættum svo mömmu fljótlega sem var komin til að sækja pabba. Við Baldur afþökkuðum farið og löbbuðum sömu leið til baka. Við lentum í snjókomu, en veðrið var u.þ.b. SV 8 m/s og -3°C. Ég reyndi að hraða mér svo ég kæmist í pottinn í sundlauginni. Fyrir náð og miskun Sveins Sundlaugarvarðar var mér hleypt inn þó að klukkan væri aðeins meira en hálf tvö. Pabbi var mættur í pottinn. Það er alveg magnað að slaka svona á eftir hressandi skíðaferðir. Ég og hundurinn Baldur höfðum gengið rúmlega 10 km á tveimur tímum.


Keilir - sunnudagur 13.1.2008

þá var komið að keilisferð. Ég var búinn að horfa á þetta fjall í allt haust á ferðum mínum á milli Reykjavíkur og Keflavíkur og fannst ég eiginlega verða að fara á það. Svo núna á sunnudaginn skellti ég mér .Það tók ca. hálftíma að keyra að Höskuldarvöllum þar sem venjulega er byrjað að ganga, en beygt er af Reykjanesbraut við Kúagerði. Þrír bílar voru komnir á bílastæðið á undan mér, tveir jeppar og einn fólksbíll. kl 11:30 rölti ég frá bílnum. Leiðin að fjallinu liggur um hraun og tók ca. 40 min að fjalli, en 25 min upp á topp. Þegar ég var hálfnaður upp gekk ég fram á tvær stelpur sem voru hluti af 12 manna gönguhóp frá Menntaskólanum í Kópavogi. Það er ekki slæmt að fá einingar í framhaldsskóla fyrir að rölta á fjöll. Leiðin upp er eftir göngustíg nánast allan tímann en þetta er nokkuð bratt og betra að fara varlega. Útsýnið var alveg þokkalegt, m.a. yfir Snæfellsjökul. Það hefði samt mátt vera aðeins bjartara, en það er víst bara janúar ennþá. Þegar búið var að fá sér kaffi, skrifa í gestabók og taka nokkrar myndir lá leiðin niður á við. Þetta gekk allt saman vel, en á miðri leið niður fjallið tók ég fram úr krökkunum, en þau þurftu svo mikið að spjalla. Samtals tók gangan tvo tíma og 20 min. kl 13:50 kom ég aftur að bílnum. Veðrið var fínt, stillt en nokkurra stiga frost. Þetta var hin ágætasta ferð á fallegt fjall.

Ennþá var nóg eftir af deginum svo ég ákvað að keyra eftir jeppavegi sem liggur upp á Oddafell. Vegurinn liggur eftir hrygg á fjallinu sem er sumsstaðar frekar mjór svo það var betra að fara varlega, brattar skriður báðum megin svo ekkert mátti út af bera. En þarna uppi er alveg ágætis útsýni. 

Hér kemur smá fróðleikur um Keili. 

Hæð: 379m, hækkun: 250m. Fjallið er leyfar af bergstandi, sem sívalar eða ílangar gíg- eða  gosrásarfyllingar úr basalti eða líparíti sem eftir standa þegar eldfjöll veðrast í burtu. Að öðru leiti er fjallið úr móbergi. 

(Sjá myndir í möppunni Keilir)


Umhverfis keflavíkurflugvöll á 167 mínútum

  

Þegar ég kom úr skólanum í gær datt mér í hug að taka smá hjólatúr. Kl 15:03 leiddi ég hjólið út úr íbúðinni og tók stefnuna út í Hafnir. Þegar leiðin út í Hafnir var u.þ.b. hálfnuð birtist vegur á hægri hönd sem ég var nokkurn veginn viss um að lægi út í Stafnes og kringum flugvöllinn. Þannig að ég smellti mér á þennan veg, víst að ég var búinn að fara út í Hafnir áður. Fyrst hjólaði ég eftir malarvegi en svo kom bundið slitlag. Þar reyndist vera heilmikil ísing sem var ekki til að gera lífið auðveldara. Það er alveg spurning að verða sér úti um nagladekk ef maður ættlar að halda áfram vetrarhjólreiðum. Á girðingunni kringum völlinn stóð að viðurlög við að fara yfir hana væru sektir eða fangelsisvist allt að 5 árum, svo ég ákvað að vera ekkert að stytta mér leið.

 Ég hjólaði fram hjá Ósabotnum þar sem er bílastæði og göngustígar. Einnig fór ég fram hjá Stafnesi þar sem er viti sem ég á kanski eftir að taka mynd af síðar við betri birtuskilyrði. Einnig fór ég fram hjá Básendum og Hvalsnesi. Í miklu sjávarflóði árið 1799 eyddist stór hluti af byggð í Básendum. E.t.v. á ég eftir að fara seinna og skoða þessa staði betur þegar ég hef meiri tíma og taka myndir og bæti þá kanski einhverjum meiri fróðleik við. Þegar ég kom til Sandgerðis var komið myrkur. Svo tók Miðnesheiðin við eða Romshvalanes. Tveir bílar flautuðu á mig, en ég held að ég hafi varla verið mikið fyrir þeim þar sem ég var allan tímann fyrir utan hvítu línuna og með ljós bæði að aftan og framan. Ferðin endaði svo í íbúðinni minni á Keflavíkurflugvelli kl 17:50 eftir 37km.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband