Unglingadeildarferð 18.1. 2009

 

Síðasta sunnudag var farið í ferð með unglingadeild bjsv. Húna upp að Káraborg. Við mættum í Húnabúð kl 9 um morguninn og fljótlega fóru þátttakendur að tínast í hús. Þeir félagar sem fóru voru Eyþór Kári Eðvaldsson, Pétur Arnarson og Guðmundur Jónsson. Níu unglingar fóru með okkur. Kynjahlutfallið var frekar óvenjulegt, 7 stelpur og 2 strákar. Við fórum á tveimur bílum upp að Helguhvammi og gengum þaðan upp að Káraborg. Þegar gangan hófst var klukkan hálf níu og ennþá myrkur.  Veðrið var rólegt. Til öryggis var ákveðið að fara með annan bílinn upp að Káraborg. Gangan tók tæplega einn og hálfan tíma. Uppi á Káraborg áttu að fara fram sigæfingar. Byrjað var á að útbúa tryggingar og græja línu í frekar auðveldri brekku með litlum halla til að byrja á, því fæstir höfðu sigið áður. Þegar allir höfðu æft sig þar stilltum við upp línu sunnar í vestari borginni á stað sem var meira krefjandi.  Eftir því sem leið á daginn fór að hvessa frá norðaustri. Eftir nokkrar góðar ferðir var ákveðið að færa sig og stilla upp einu sinni enn og núna skildi sigið af austari borginni. Eins og áður var nóg af góðum festum til að tryggja í. Við sigum austur af klettinum niður þverhnípt stuðlaberg. Aldeilis flottur staður fyrir svona æfingar. Um þrjúleitið var ákveðið að pakka saman og fara að koma sér heim. Flestir fengu far með bílnum niður en hinir röltu niður í Helguhvamm. Rétt fyrir fjögur voru allir komnir í Húnabúð eftir vel heppnaðan dag.


Spákonufell 11.1.2009

Í gær fórum við þrír félagar úr björgunarsveitinni Húnum á Spákonufell. Ég, Guðmundur Jónsson og Helgi Þór Kristjánsson. Spákonufellið er rétt norðan við Skagaströnd. Við hittumst í Húnabúð kl 8 og lögðum af stað rétt fyrir hálf níu. Kaffistopp á Blönduósi. Þegar við komum á staðinn þar sem við ættluðum að byrja gönguna náði ég að festa bílinn, sem kom ekki að sök því það var ekki orðið almennilega bjart og veðrið ekki glæsilegt. Þegar búið var að losa bílinn var ákveðið að reyna við fellið enda veðrið heldur skárra. Þá var klukkan hálf tólf. Gangan hófst við þjóðveginn vestan við fellið. Snjór og vindur gerðu það að verkum að gangan gekk frekar hægt. Stefnan var tekin á skarð sem er norðan við klettaborgina, en leiðin þangað er nokkuð jöfn brekka meðfram girðingu. Svo var ákveðið að reyna uppgöngu sunnan megin. Þegar stutt var að klettaborginni tók við skafl og þá þurfti að beita broddum og öxum til að komast örugglega yfir. Næst var príl upp kletta og loks stóðum við allir þrír á toppnum. Það var hvasst á toppnum og ekki gott skyggni, en mér skilst að þetta eigi að vera góður útsýnisstaður. Við vildum helst ekki þurfa að fara sömu leið niður svo við fórum niður eftir hrygg að norðan. Sú leið virðist vera algengasta leiðin, a.m.k. er hún stikuð. En leiðin sem við fórum upp er miklu skemmtilegri og líka styttri. Það er alveg spurning að fara þetta aftur í betra veðri og hafa meira útsýni.

Hæð 639 m

Hækkun 610m 

Uppgöngutími 2,5 klst.

Samtals (upp og niður) 4 klst.

Göngulengd ca. 3 km.

 


Heiðarhorn 1.11.2008

Laugardaginn 11. nóvember fór ég í ferð með Ísalp. Til stóð að fara á snæfellsnesið en áættlun var breytt rétt áður en við lögðum af stað. Við vorum sex sem fórum og hittumst eins og vanalega við Klifurhúsið kl átta um morguninn. Við fórum á tveimur bílum. Stefnan var tekin á Skarðsheiðina. U.þ.b. kl 10 gengum við af stað frá bænum Efra-Skarði í Svínadal. Við fylgdum Skarðsá til að byrja með en tókum svo stefnuna á Skarðshyrnu (946m). Frekar kalt var í veðri og vindur. Þegar toppnum var náð var stefnan tekin á Heiðarhornið (1053m) sem er hæsti hluti Skarðsheiðar. Fljótlega voru teknir fram broddar til öryggis af því snjórinn var orðinn frekar harður. Toppi Skarðsheiðar var svo náð kl 13. Mér til undrunar var mun lygnara þar heldur en nirði í dalnum. Venju samkvæmt þurfti að snúa sér í hringi og taka myndir. Svo var farið niður aftur. Fórum auðveldari leið heldur en upp þ.e.a.s ekki með viðkomu á Skarðshyrnu. Rétt fyrir kl 15 komum við niður að bílunum eftir hressandi brölt. Ég keyrði til Hvammstanga en hin fóru aftur í borgina.

 

Heiðarhorn

Hæð: 1053m

Göngubyrjun: Bærinn Efra-Skarð

Göngutími: 3 tímar upp, 2 tímar niður

Gönguhækkun: 960m

Göngulengd : 8-9 km

Broddar efst


Ísklifur í Sólheimajökli

Síðasta laugardag (18.10.2008) fór ég í ferð með Ísalp. Við hittumst fyrir utan klifurhúsið kl 8 um morguninn. Ég fékk far með Jóni Lofti sem fór með mér á mt. Blanc í sumar. Í hópnum var slatti af björgunarsveitarmönnum. Eftir u.þ.b. tvo tíma og eitt kaffistopp á Hvolsvelli komum við að Sólheimajökli. Veðrið var alveg eins og best verður á kosið miðað við árstíma. Þar sem þetta var fyrsta ferð vetrarins var klifurformið hjá mér ekki upp á það besta, en smám saman kom þetta. Vorum komin í bæinn milli sjö og átta um kvöldið eftir góða ferð.

Kayakróður - Njarðvík

Ég skellti mér í smá róður í Njarðvík sl. laugardag. Var mættur að geymslugámunum rétt rúmlega níu. Þar hitti ég tvo bræður, þá Andra og Gauta. Við rérum inn með landinu að stapanum og fórum í hellaskoðun. Rétt fyrir kl 11 komum við í land á sama stað eftir u.þ.b. eins og hálfs tíma róður í rigningu og öldugangi.

 


Kayakróður á Vatnsnesi

Ég ákvað að róa út með Vatnsnesi í nokkrum áföngum.

1. Hvammstangi - Ánastaðir

Mánudagur 28/7 2008

Logn - 9km - 1 og hálf klst.

 

2. Ánastaðir - Hamarsbúð

Fimmtudagur 14/8 2008

Logn - 7km - 1 klst.

 

3. Hamarsbúð - Stapar

Mánudagur 18/8 2008

SV átt - 8km - 1 klst. og korter

 

 

 


LE MONT-BLANC

Ferðasaga - Gönguferð um Alpafjöllin sem endaði með ferð á Mt. Blanc. 21. - 29. júní 2008 

20/6

Rétt fyrir ellefu um kvöldið hitti ég göngufélagana í Leifsstöð. Þetta var fólk sem ég hafði aldrei hitt áður en þau þekktust. Þetta voru Stefnir, Jón Loftur og Sólveig. Klukkan 00:55 að Íslenskum tíma var svo flogið út. Þremur tímum og tveimur rómantískum gamanmyndum síðar komum við til Parísar. Ég hefði sennilega betur reynt að sofna heldur en að vera að horfa á þessa vitleysu.

 

21/6

Klukkan níu um morgun að frönskum tíma var flogið til Genf (sjö m.v. ísl. tíma). Þegar við komum þangað kom í ljós að farangurinn hafði orðið eftir í París. Við hittum leiðsögumanninn okkar hann Gregory Facon. Hann lét skutla okkur á bíl til Chamonix. Við fengum herbergi á hóteli sem var með jökulá í garðinum.  Það var mjög skemmtilegt útsýni úr herberginu, út um gluggann mátti sjá ána, hús og fjöll, en þakglugginn var eins og myndarammi með fjalli. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir fengum við okkur að borða og svo var kíkt í búðir. Svo var ákveðið að taka siestu, enda sumir hálf svefnlitlir eftir flugið. Eftir það var kíkt á smá rölt og svo fundum við veitingastað þar sem við fengum okkur þriggja rétta máltíð. Lax - Önd - Ostur. Þetta kvöld virtist vera árshátíð bílskúrsbanda í bænum. Á hverju götuhorni mátti finna hljómsveitir sem spiluðu af mikilli innlifun. Strákarnir röltu með mér um bæinn til miðnættis en ég þurfti aðeins að kanna mannlífið betur. Ég rölti inn í hliðargötu þar sem var fullt af hljómsveitum og ungu fólki í miklu stuði. Klukkan 2 rölti ég heim á hótel, búinn að fá ágætis skammt af djammi í Chamonix.

 

22/6

Klukkan 8:30 var vaknað í morgunmat. Gregory kom rúmlega níu og fór yfir búnaðinn okkar. Það sem við tókum ekki með okkur var skilið eftir í geymslu á hótelinu. Gregory keyrði okkur í þorpið Le Tour þar sem við tókum tvo kláfa upp í Balme fjallaskarðið. Þaðan gengum við svo upp í fjallaskála sem kenndur er við Albert Fyrsta (2702m). Þegar við vorum búin að fá okkur að borða um tvöleitið fengum við okkur göngutúr á jökulinn ofan við skálann. Við æfðum okkur í að ganga í línu og fórum í nokkuð bratta snjóbrekku upp á tind sem endaði í skemmtilegu klettabrölti. Þessi tindur er 3100m hár. Ferðin til baka tók mun styttri tíma, því við gátum rennt okkur nánast alla leið að skálanum, sem var ekki leiðinlegt. Klukkan 18:15 var matur. Baunasúpa - Kjöt með makkarónum - Ostur. Fljótlega var farið að sofa því daginn eftir átti að vakna snemma.

 

23/6

Vaknað kl 6:30 og farið í morgunmat sem var nú svona frekar fátæklegur. Um sjöleitið var gengið af stað frá skálanum. Gengið var eftir jökli sem kenndur er við fjallið Turninn (le Tour). Skarðið er í 3280m hæð og hinum megin við það beið okkar brölt á turninn sjálfann (Aguille de Tour). Síðasti parturinn var farinn án brodda og axa enda bara klettar. Þegar við komum niður lá leiðin yfir Trient hásléttuna. Sú leið var frekar þreytandi vegna sjóbráðar. Loks komum við í Trient skálann (3170m) um eitt leittið, en sá skáli er í Sviss eins og stór hluti þessarar dagleiðar. Seinni partinn rölti ég upp í skarð ofan við skálann þar sem hægt er að komst í símasamband. Þar blasti við aldeilis fínt útsýni til Sviss. Kl 19 var kvöldmatur. Brauðsúpa - Spaghetti - Salat & ananas í eftirétt. Við forum svo komin í koju fyrir níu um kvöldið.

 

24/6

Vaknað kl 5:00 í morgunmat sem var bara fínn. Klukkutíma síðar var gengið af stað frá Trient skála. Það var orðið bjart og það hafði greinilega fryst um nóttina því auðveldara var að ganga en daginn áður. Gengið var eftir trient háslettunni í skarðið Fénetre du Saleina (3267m) og þaðan í Fênetre du Tour (3400m). Leiðin þangað var er nokkuð brött. Svo komum við aftur í Albert fyrsta og borðuðum þar einskonar hádegismat. Gengið var að Balme skarðinu og kláfurinn tekinn niður. Eftir smá skoðunarferð í Chamonix fengum við okkur að borða. Ég fann hjá mér þörf til að borða eitthvað skrítið svo ég pantaði mér 12 snigla. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

 

25/6

Vaknaði kl 8:00 í morgunmat. Klukkan níu var búið að raða í pokana. FJljótlega kom svo Gregory með fötin okkar sem hann hafði tekið með sér heim og þvegið. Svo var rölt á lestarstöðina. Leiðin lá með lest upp til Montenvers (1909m). Til að komast niður á jökulinn þurfti að príla í járnstigum sem höfðu verið boltaðir í lóðrétt bergið. Á jöklinum var tekin broddaæfing og snarl. Gengið var eftir jöklinum uns við blasti stórgrýti. Þegar grjótið var búið þurfti að komast upp frá jöklinum. Þá tóku við u.þ.b. 150m af járnstigum, lóðrétt hækkun. Eftir það gengum við eftir frekar bröttum göngustíg. Á einum stað á leiðinni var lækur þar sem fínt var að fylla á flöskur, þvo hár og fara í fótabað. Loks blasti couvercle skálinn við okkur. Við tókum því rólega fram að kvöldmat sem var klukkan 7, súpa með osti og brauði - kjöt - ávestir og rjómi. Ekki slæmt. Allir komnir í koju kl níu.

 

26/6

Vaknað kl 6, morgunmatur kl hálf sjö. Svo var gengið af stað meðfram gróðri vaxinni fjallshlíð og góðum skammti af grjóti. Um hálf ellefi komum við í lítinn skála sem byggður er utan í klettum, en til að komast niður að honum þurfti að príla í stigum. Við fengum okkur hressingu hjá stelpunum í skálanum. Við stoppuðum þarna í þrjá tíma í góðum félagsskap og frábæru veðri. Gregory vildi ekkert vera að drífa sig af því hann var ekkert sérlega hrifinn af skálverðinum í Requin skála þar sem við ættluðum að gista næstu nótt. Til að halda áfram göngunni þurfti að taka fleiri stiga til að komast niður á jökulinn. Gengið var á ís undir tindinum Tacul. Reqin skálinn blasti við, en til að komast upp að honum þurfti að fikra sig upp bratta brekku, fyrst með stigum og keðjum en svo eftir stíg. Hitinn var mikill sem kostaði mikinn svita. Upp komumst við kl eitt eftir hádegi. Skálinn minnti á lítinn kastala. Skálavörðurinn var nokkurnveginn eins og Gregory hafði lýst, miðaldra kona sem hafði ótal reglur sem við áttum að fara eftir. Bakpokinn átti að vera á einum stað, öxin og klifurdótið á öðrum og skórnir á þeim þriðja. Hún talaði svo mikið að maður varð eiginlega þreyttari á að hlusta á hana heldur en eftir göngu dagsins. Karlinn hennar sagði fátt enda komst hann sjaldan að. Fram að mat var slakað á í sólinni. Klukkan sjö var kvöldmatur, en það var pasta einu sinni enn. Allt í lagi með það. Kl 9 rak kerlingin okkur í koju.

 

27/6

Rétt fyrir 5 heyrði ég Sólveigu spyrja hvað klukkan væri. Ég leit á úrið og hvíslaði á móti að hún væri 3. Ég fattaði hins vegar ekki að úrið var stillt á íslenskann tíma. Ég fékk litlar þakkir fyrir, þar sem hún taldi sig mega sofa tvo tíma í viðbót. Stuttu seinna birtist húsráðandi og kallaði á þísku að nú ættum við að vakna og fara á fætur. Klukkan var fimm. Þá var ekkert annað í stöðunni en að hlíða því. Eftir morgunmatinn var gengið af stað. Við þræddum okkur á milli jökulsprunga þegar við gengum upp Dalinn Hvíta (Vallée Blanche) . Veðrið var frekar kalt og þoka. Við gengum nokkuð rösklega til að halda á okkur hita. Á leiðinni sáum við fyrir ofan okkur kláf sem hægt er að taka frá Ítalíu til Cosmiques. Við komum í Midi fjallaskarðið (3532m), en þaðan er þægileg leið upp að Cosmiques skálanum (3613m). Tíminn telst nokkuð góður hjá okkur, en þessi dagleið var 4 tímar. Leiðsögumaðurinn fyrir toppadaginn kom nú til sögunnar. Hann hafði komið með kláf frá Ítalíu og heitir Marco. Í  Cosmiques tók við almenn rólegheit og reyndi fólk að leggja sig eitthvað til að hafa meiri orku daginn eftir.

 

28/6

Toppadagur.

Klukkan eitt var vaknað og farið á fætur eftir tveggja til þriggja tíma svefn. Við vorum með þeim seinustu úr morgunmat og voru því margir komnir af stað á undan okkur. Úti var ennþá myrkur, sem var kanski bara fínt svo við sæjum ekki hvað fyrsta brekkan var löng og brött. Allir smelltu á sig ennisljósum til að sjá fram fyrir tærnar á sér. Framundan var langur og hlykkjóttur ormur sem liðaðist upp brekkuna. Þetta voru ljós þeirra sem höfðu farið af stað á undan okkur. Hópnum var skipt í tvær línur. Í fyrri línunni voru Gregory, ég og Jón Loftur. Í seinni línunni voru Marco, Stefnir og Sólveig. Við tókum reyndar fram úr mörgum línum á leiðinni. Leiðin er kennd við hin þrjú Hvítu fjöll (les Trois Mont-Blanc) og lá úr Midi skarðinu, yfir öxl Mont Blanc du Tacul (4248m). Um fjögur leitið var orðið bjart. Það var mjög flott að sjá þegar sólin var að koma upp. Haldið var í gegnum Maudit skarðið og upp brattar brekkur Mont Maudit (4465m) , sem er tæknilega erfiðasti kaflinn.  Leiðsögumennirnir leiddu og græjuðu tryggingar. Þessi brekka var það brött að beita þurfti öxum og broddum við að klifra upp. Eftir þetta lá leiðin niður að Brenva skarði og þaðan í síðustu brekkuna upp á sjálfan toppinn Mt. Blanc (4808m). Ég var búinn að búa mig undir 15-20 stiga frost þennan dag, en mér til mikillar ánægju var veðrið bara mjög þægilegt bjart og smá frost. Tilfinningin að komast á toppinn var alveg mögnuð, ferðafélagarnir föðmuðust og tóku myndir af hvor öðrum og öðru sem fyrir augu bar. Úsýnið yfir Alpana var frábært. Ferðin upp á topp Mont Blanc frá Cosmiques skála tók sex tíma og 10 mínótur. 1300m hækkun. Þegar allir voru búnir að virða fyrir sér útsýnið, taka myndir, senda sms og hringja heima var rölt niður. Tekin var svokölluð Gouter leið. Okkar beið 2450m lækkun. Fyrst var genginn snjóhryggur. Við komum að klósetthúsi sem var búið til úr málmi svo það þurfti ekki einu sinni að fara úr broddunum. Svo fengum við nokkrar fínar snjóbrekkur það sem hægt var að renna sér á rassinum og fá fínt rennsli. Við komum við í tveimur skálum, í öðrum keypti ég mér kók sem var mjög hressandi. Á tímabili þurftum við að klöngrast niður kletta og urð sem var frekar þreytandi. Loks komum við svo niður í Chamonix eftir að hafa tekið lest sem virtist hafa verið þarna í óbreyttri mynd í að a.m.k. sl. 50 ár. Við komum niður um fimm leytið og þá var ekki slæmt að fá sér sveittan hamborgara og bjór. Um kvöldið fórum við út að borða með báðum leiðsögumönnunum. Ég þurfti að fá mér eitthvað skítið svo ég pantaði froskalappir. Það var mjög sérstakt, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

29/6

Eftir morgunmat tókum við taxa til Genf og flugum þaðan til Parísar. Samkvæmt áættlun áttum við að hafa þrjá tíma til að slóra á Charles de gaulle fluvellinum en tíminn fór mestmegnis í að koma sér milli staða á flugvellinum og biðraðir. ég get ekki sagt að þetta hafi gengið neitt mjög hratt fyrir sig þarna. Við lentum svo í Keflavík um miðjan dag eftir mjög vel heppnaða ferð.

 

 


Nýjar myndir frá Mt. Blanc

Ég var að setja inn myndir frá Mt. Blanc ferðinni 21. - 29. júní. þær eru í fjórum möppum.


Þrælsfell

Rétt fyrir kl 17 síðasta fimmtudag (12.06.08) datt mér í hug að rölta upp á þrælsfellið. Ég hringdi í þá sem mér fannst líklegir til að rölta með mér, en allir voru eitthvað vant við látnir nema Guðmundur Jónsson. klukkan sex um kvöldið vorum við búnir að græja okkur og keyrðum af stað sem leið liggur fram hjá Helguhvammi, fram hjá Káraborg og yfir Fjalagilið. Þegar við vorum komnir í u.þ.b. 660m hæð lagði ég bílnum og við röltum af stað frá einskonar bílastæði sunnan við Þrælsfellið. Að auki var með í för hundurinn Baldur sem er mikill útivistarhundur. Þokan var mætt og eftir því sem ofar kom varð hún þéttari. 34 mínótum eftir að við gengum af stað vorum við komnir að vörðunni á toppnum í 900m hæð. Útsýnið var mjög takmarkað. Eftir stutt stopp og myndatökur af okkur og þoku var hlaupið til baka. Það er alltaf soldið leyndardómsfullt að ganga í þoku. Ferðin niður tók 20 mínótur. Rúmlega níu vorum við komnir til Hvammstanga og það var alveg prýðisgott að enda ferðina í heita pottinum í sundlauginni.

Mt Blanc

Nú fer að styttast í ferð mína til alpafjalla og á Mont Blanc, en hún verður 21. júní. 9 daga ferð þar af 7 dagar á göngu. Ég fer með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.  Ferðin byrjar og endar í bænum Chamonix. Mikill ævintýrabragur er á Chamonix. Fjallakóngurinn Mont Blanc gnæfir yfir Alpafjöllin (4808 m), Fjallið Hvíta eins og það útleggst á máli heimamanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband