Rauðkollur

Annan dag Páska (13.4.2009) Fór ég og Daníel Ingi á Rauðkoll (749m) sem er staðsettur norðarlega í Víðidalsfjalli. Við komum við á Jörfa og hittum þar húsfreyjuna hana Stellu. Henni leist vel á þetta ferðalag hjá okkur. Við keyrðum sem leið lá framhjá bænum og eftir slóða, alveg þangað til við komum að girðingu. Við vorum búnir að græja okkur og gengum af stað kl 11:15. Veðrið var bara nokkuð gott, þó skyggnið hafi ekki verið neitt gríðarlegt. Þar sem ég var með minna reyndan mann með mér ákvað ég að skella á okkur broddum til gamans. Frekar þunnur snjór var yfir öllu, en hann hefði mátt vera harðari svo broddarnir kæmu að betri notum. Toppnum var náð eftir 2 tíma og korter. Eins og oft áður var fljótlegra að fara niður. Nokkuð gott rennsli á snjósköflum mestalla leið. Samtals tók gangan 3,5 tíma. Fyrsta ferðin mín á þennan topp að vetri til.

 Fjall nr. 8 á árinu.


Móskarðshnjúkar

Sunnudaginn 29. mars fór ég á Móskarðshnjúka ásamt Boggu, Agnesi og Guðjóni. Við Fórum á jeppanum mínum eftir hádegið. Klukkan hefur verið 13:20 þegar við gengum af stað. Veðrið var bjart og fínt, mun betra en búist var við miðað við veðurspá. Þunnt lag af snjó var yfir öllu. Broddafæri var á smá kafla á leiðinni upp. Fyrst gengum við á miðhnjúkinn (787m) og svo á þann austari (807m). Þegar við vorum að verða komin niður fór skygnið að spillast. Samtals tók gangan u.þ.b. 5 tíma enda ekkert verið að flýta sér.

 

Fjall nr. 7 á árinu.


Kistufell 14.3.2009

Ég var búinn að ákveða að skreppa til Hvammstanga þessa helgi svo þá var upplagt að taka eitt fjall í leiðinni. Kistufell varð fyrir valinu (830m). Kl 9 á laugardagsmorgni hitti ég Hödda, Stefán gjaldkera og Atla í FBSR húsinu í Reykjavík. Keyrðum út úr borginni þegar við vorum búnir að græja okkur með viðkomu í einni sjoppu. Kl 10:40 vorum við að ganga af stað. Við fylgdum girðingu upp með Kollafjarðará. Fylgdum svo snjólínu upp suðvesturhlið Kistufells. Á leiðinni upp fengum við meðvind. Ekki reyndis þörf á broddum en axir komu í góðar þarfir í snjóbrekkunni. Uppgangan tók cirka 3 tíma. Planið var að fara Gunnlaugsskarðið niður. Skyggnið var nánast alveg farið. Við ákváðum að útbúa snjósæti og polla til að hægt væri að slaka einum í einu fram af snjóbrúninni, sem við vorum ekki alveg að átta okkur á vegna skyggnis. Þegar við ættluðum að fara að græja línu rofaði allt í einu til. Við þurftum því ekki á tryggingum að halda og fikruðum okkur fram af snjóbrúninni sem var ekki eins voðaleg og við héldum. Nokkrir snjóskaflar urðu á leið okkar, sem er alltaf hressandi og flýtir fyrir. Svo fór að rigna og það rigndi þangað til við komum að bílunum. Samtals tók ferðin tæpar 5 klst. Ég hélt svo áfram til Hvammstanga en hinir fóru aftur til Reykjavíkur.

Húsfell 8. mars 2009

Í gær var rölt á Húsfell (288m). Ég fór með Boggu, Stebba og Hrafnhildi, sem eru félagar mínir í Nýliðum FBSR. Gangan byrjar nálægt Kaldárseli, ofan við Hafnarfjörð. Farið er framhjá vatnsbólinu og svo tekur við ganga eftir nokkuð sléttu landi að fjallinu. Fórum af stað kl 14:30. Samtals tók gangan 2 tíma, upp og niður. Svo var farið í sund í Hafnarfirði. Þægilegt sunnudags rölt á auðvelt fjall.

Skíðaferð til Akureyrar helgina 27. feb - 1. mars

Vegna óhagstæðra snjóalaga var ákveðið að fara með B1 og B2 í skíðaferð til Akureyrar frekar en að fara í gönguskíðaferð. Farið af stað frá FBSR við Flugvallarveg kl 20 á föstudagskvöldi. Stoppuðum í Staðarskála til að borða. Fengum svo góðfúslegt leyfi hjá starfsfólkinu til að setja upp tjaldbúðir við skálann. Þvílíkan undrunarsvip hef ég sjaldan séð áður eins og þegar Matti spurði einn starfsmanninn hvort við mættum tjalda, hann hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín.

Laugardagur. Ræs kl 6. Brottför kl 7. Komum til Akureyrar kl 10. Keyrt upp að skíðasvæði. Fljótlega voru settar upp tjaldbúðir hjá gönguskíðasvæðinu. Svo var farið í brekkurnar og skíðað til kl 16. Þá var farið í sund í Þelamörk.

Sunnudagur. Vaknað kl 8 byrjað að græja sig fyrir daginn. Tókum saman tjöldin til að flýta fyrir.Rúmlega 10 var ég kominn í lyfturnar. Skíðin sem ég var á vöktu sérstaka athygli þar sem þau eru örugglega 20ára gömul og því ekki alveg samkvæmt nýjustu tísku. Margt fólk var í fjallinu báða dagana enda veðrið og snjórinn alveg eins og það átti að vera. Kl 15 var búið að koma dótinu í bílana og þá var lagt af stað. Við stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur að borða. Það var brjálað að gera og örugglega sjaldan verið selt eins mikið af pulsum. Milli átta og níu vorum við aftur komin á Flugvallarveginn í Reykjavík eftir góða ferð norður yfir heiðar.


Skíðaferð - Landmannalaugar

(Smá yfirlit skrifað eftir minni)

Helgina 13. - 15. febrúar fór ég í gönguskíðaferð með B1 (nýliðahópur FBSR). Mæting kl 19 á föstudagskvöldi. Brottför kl 20. Keyrt austur fyrir fjall. Stoppað í KFC á selfossi. Við gengum svokallaða dómadalsleið. Lögðum af stað á gönguskíðunum um ellefu. Þetta var sameiginleg ferð með B2. Við lögðum af stað á gönguskíðunum um kl ellefu. Margir höfðu aldrei stigið á gönguskíði áður. Gengnir voru cirka 5km. Færið var frekar erfitt, bleyta og krap. Nota þurfti höfuðljós vegna myrkurs. milli 2 og 3 var tekið hlé á göngunni og tjaldað.

Á laugardeginum var færið mun betra og veðrið gott. Dagurinn var langur. Að mestu leiti slétt gönguland. Á hægri hönd mátti sjá Heklu (1491m). Eftir tæplega 40km göngu ákváðu foringjarnir að þetta væri komið gott og við vorum selflutt á björgunarsveitarbílum inn í Landmannalaugar. Ef minnið bregst ekki var ég kominn þangað um kl 10 um kvöldið. Þá var farið í að setja upp tjaldbúðir og græja kvöldmat. Dagurinn var svo endaður með baði í lauginni, sem var aldeilis frábært eftir erfiði dagsins.

Sunnudagur. Ræs 7. Brottför 8, eða svona næstum því. Eftir að búið var að henda bakpoka á bakið og spenna skíði á lappirnar var arkað af stað. Fórum framhjá lauginni, yfir göngubrú og síðan meðfram brekku. Til örrygis var haft bil á milli manna ef snjórinn skyldi fara af stað fyrir ofan okkur. Mikinn hluta leiðarinnar var meðvindur sem gerði þetta bara þægilegra. Komum að Sigöldu, fengum þægilega brekku niður að vegi. Einhver bið var eftir rútunni, svo við vorum selflutt í hálendismistöðina í Hraueyjum. Þennan dag voru gengnir rúmir 20km og samtals 66,15km um helgina. Rútan keyrði svo með þreytta en sátta skíðamenn til Reykjavíkur.


Skíðaferð - Sauðá

í Dag (sunnudaginn 8. feb 2009) Fórum við pabbi á skíði. rétt fyrir eitt gengum við frá sláturhúsinu norður með vatnsnesveginum. Við fylgdum slóð sem að öllum líkindum hefur verið búin til af Hilmari Hjartarsyni deginum áður. Við Kárastaði ákvað pabbi að snúa við, en ég hélt áfram. Við Ánastaði hitti ég nokkra hesta sem virtust vera frekar glaðir að sjá mig. Við Almenning endaði slóðin. Ég hélt áfram göngu og fór að Sauðá. Það vantaði bæði meiri tíma og snjó til að fara lengra. Á Sauðá hitti ég Heiðu, Ellert, Stellu og Guðna. Ég fékk að hringja og hringdi í pabba til sækja mig. Hann hafði skroppið á rúntinn og átti bara eftir nokkra metra að bænum svo ég þurfti ekki að bíða lengi. Gangan þessa cirka 15km tók þrjár klst.  

Þrælsfell - unglingadeild

Laugardaginn 7. feb var var farið með unglingadeildina Skjöld í fjallgöngu. Mæting var kl 9:30 í Húnabúð. Rétt fyrir tíu var allt klárt og Gummi Jóh keyrði okkur upp að Káraborg. Þetta voru semsagt ég, Magnús Eðvaldsson umsjónarmaður, Kristján, Daníel, Sigrún og Unnur. Veðrið var alveg prýðisgott, logn og fimm eða sex stiga frost. gangan upp tók tæplega2,5 tíma. kl 12:30 vorum við komin upp að vörðu þar sem við borðuðum hádegismat. Hálftíma síðar fórum við til baka sömu leið. Við tókum nokkrar ísaxabremsuæfingar í brekkunum. Svo var auðvitað ekki hægt að sleppa því að renna sér. Við rákumst á nokkra unga menn á vélsleðum, og sem betur fer vorum við á niðurleið þegar þeir komu. Það er aldrei gaman að vera að klífa fjall þegar kemur vélsleði og tekur fram úr manni. Þarna neðar var líka samankominn tækjafloti bjsv Húna ásamt öðrum jeppum, sleðum og fjórhjólum. Gummi Jóh kom á móti okkur á gönguskíðum. Ég, Magnús og Daníel urðum honum samferðu að bílnum hans sem var neðan við Káraborg. og  fengum svo far með honum til Hvammstanga. kl 15:30 vorum við komnir niður. Enn einn góður dagur á fjöllum. Fjórða fjallgangan mín á árinu.


Tindfjallaferð með B1

Hegina 30. jan. til 1. feb. 2009 fór ég í ferð með nýliðum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Það sem var tekið fyrir var fjallamennska 1 og snjóflóð. Mæting var kl 19 á föstudagskvöldinu í húsi fbsr og lagt var af stað kl 20. Keyrslan austur tók þrjá tíma, en það var stoppað á Selfossi til á borða. Um kl 11 var gengið af stað úr fljótshlíð upp að skála fbsr í Tindfjöllum. Það var kalt á leiðinni og vindur. u.þ.b. 3,5 tímum síðar vorum við komin upp í skála. Þá átti eftir að koma sér fyrir og borða. kl 5 var ég kominn í svefnpokann minn í gamla skálanum. Rúmlega 9 næsta morgunn kom Matti og vakti mannskapinn. Þá var skipt í tvo átta manna hópa. Minn hópur fór á snjóflóðaæfingu, þar sem var æfð leit með ýlum, grafnar holur til að skoða snjóalög og stangaleit. Um kvöldið var snjóhúsagerð. Ég gerði snjóhús með Herði, Hjalta og Hannesi. Það verk tók tvo og hálfan tíma. Næst var eldað undir berum himni, sem var stórglæsilegur. Stjörnubjartur og fallegur. við vorum svo lagstir til svefns í nýja húsinu okkar fyrir tíu um kvöldið. Kl 8 næsta morgun heyrðist í Matta sem þýddi að allir ættu að vakna og fara að græja sig fyrir daginn. Minn hópur fór í sömu verkefni og hinn hafði verið í daginn áður. Við tókum broddaæfingu og ísaxabremsu. Einnig bjuggum við til snjósæti og snjópolla sem eru aðferðir til að tryggja í snjó. Svo var rölt niður sömu leið og við komum á föstudagskvöldinu. Á miðri leið skiptum við okkur í tvo hópa og gengum restina af leiðinni í línu. Það var keyrt á Hvolsvoll þar sem við fórum í pizzuhlaðborð. Ef minnið svíkur ekki vorum við komin til Reykjavíkur milli átta og níu um kvöldið. Þetta var velheppnuð ferð og veðrið klikkaði ekki.


Kayak og Keilir

síðasta sunnudag (25.01.2009) skellti ég mér til Njarðvíkur í kayakróður. Ég var kominn þangað kl 10. Þeir sem fóru ásamt mér voru Andri, Beggi og Friðrik. Við rérum aðeins út fyrir grjótgarðinn sem er fyrir utan kayakaðstöðuna. Öldurnar voru frekar stórar svo við snérum fljótlega við. Nokkrar surfæfingar voru teknar og veltur. Við enduðum svo í kaffi hjá Andra í hádeginu.

Á leiðinni til Reykjavíkur ákvað ég að nýta ferðina og skreppa á Keili  (379m). Vegurinn sem liggur um hraunið þar sem gangan byrjar var flugháll og margir stórir pollar. Kl 13.49 fór ég af stað frá bílnum. Þegar stutt var eftir að fjallinu rakst ég á Arnar Inga sem var með mér á frumgreinasviðinu ásamt hópi af skiftinemum. Á undan þeim voru maður og kona með þrjá hunda. Ég var svo fyrstur á toppinn, kl 15:02. Á niðurleiðinni mætti ég Arnari og félögum. ég fór sömu leið til baka og var kominn að bílnum kl 16:00. Hressandi sunnudagsganga. Fjall númer 3 á árinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband