Klifur og jakahopp

Laugardaginn 17. febrúar 2007 fóru ég og Pétur og tókum smá ísklifuræfingu. Við fórum af stað um hádegi til að leita að ís. Við keyrðum áleiðis upp á Víðidalstunguheiði aðeins lengra en Bergá, svo fylgdum við girðingu niður að gili Víðidalsár. Þegar þangað var komið fórum við að leita að heppilegum stað til að komast niður í gilið. Eftir smá leit fundum við ágæta leið. Við gengum upp með ánni, en vegna þess að hún var búin að ryðja sig og stór klakastykki út um allt var ekkert annað að gera en setja á sig broddana. Þarna fengum við skemmtilega leið á bakka árinnar þar sem við ýmist gengum eða stukkum milli jaka til að komast leiðar okkar. Loks fundum ís sem við gátum notað til að klifra upp úr gilinu. Ísinn var skemmtilega mjúkur svo mjög gott var að klifra í honum. Pétur byrjaði á að leiða en svo klifraði ég af stað og leiddi en hann tryggði. Þegar ég var komin u.þ.b. 30 metra upp fyrir hann var gilbrúninni náð. Þá var líka allur ís búinn en síðustu metrana þurfti að klifra í freðinni grasbrekku. Þegar upp var komið fann ég trausta þúfu sem ég tryggði í svo að Pétur kæmist upp af öryggi. Þetta var prýðisgóður dagur með blöndu af göngu jakahoppum og klifri.


Ísklifur á Víðidalstunguheiði

Í gær (13. jan 2007) fórum við Pétur af stað um 10 leitið um morguninn og keyrðum inn í Víðidal. Ætlunin var að finna sér góðann foss til að æfa sig í ísklifri. Fyrir valinu varð Öxnárfoss sem fellur í Víðidalsá. til að komast að honum þurfti að keyra fram hjá Hrappstöðum og áleiðis upp á Víðidalstunguheiði. Þegar við vorum komnir á staðinn byrjuðum við á að búa til aðaltryggingu með þremur íssksrúfum. Síðan sigum við niður fossinn í "top rope" eftir að vera búnir að klifra upp fossinn eftir nokkrum mismunandi leiðum enduðum við á að fara upp án "top rope" og skiptumst við á að tryggja og leiða. Fín æfing og frábær dagur, við vorum komnir heim um kl 18 þannig að birtan var nýtt í botn.

Bauluferð

Lagt var af stað rúmlega átta laugardaginn 18. nóvember 2006, ég frá Reykjavík en Pétur frá Hvammstanga. Hann var mættur á undan mér en leiddist ekki því hann hafði Fréttablaðið með sér til að lesa. Gengið var frá Búðardalsafleggjaranum og tók uppgangan um tvo og hálfann tíma sem teljast vera lægri mörk samkvæmt bók þeirra Ara og Péturs um 151 fjall. Stórgrýtt með snjó á milli. Veðrið var kalt en mjög fallegt og útsýnið fagurt. Niðurgangan tók um tvo tíma. Góð ferð þrátt fyrir óvænta salibunu hjá mér á niðurleiðinni.


Skessuhorn

Síðustu myndir sem komu inn á síðuna eru frá ferð sem ég fór með Ísalp 26.2.2005 á Skessuhorn í Borgarfirði. Skessuhorn er glæsilegt fjall sem sem tilheyrir Skarðsheiðinni. Ég fór frá Hvammstanga og hitti svo hina við Hvanneyrarafleggjarann, en þeir komu úr borginni. Þetta var skemmtileg ferð með Alpabrag eins og þáverandi formaður orðaði það.

Kayakferð

Einn góðan veðurdag, nánar tiltekið 2. apríl 2004 var ákveðið að skella sér í siglingu. Eins og stundum áður var róið frá Hvammstanga og til suðurs. á leiðinni hitti ég æðarkollur og seli. Prýðisdagur í góðum félagsskap

Ísklifur

Nokkrar ísklifurmyndir voru að detta inn, þessar eru síðan 21.1.2006. Ég fór inn í Brynjudal með Íslenska alpaklúbbnum.

Gamlar myndir

Núna er ég að dunda mér við að setja inn gamla myndir, var að setja jakamyndir frá vorinu 2005. Ég réri frá Hvammstanga og inn að Litla Ósi á Kayaknum mínum. Þetta var alveg mögnuð upplifun að vera þarna einn með ísjakanum.


Einu sinni er allt fyrst

Jæja þá er þetta að gerast, ég er kominn með bloggsíðu. En ég get nokkurn veginn lofað að ég verð ekki mjög duglegur við að skrifa hér. Þetta er aðallega hugsað fyrir myndir frá einhverjum skemmtilegum ferðum sem ég fer í og e.t.v. eitthvað fleira sem mér dettur í hug.

Eyþór K

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband