Afmælistakmarki náð!

Nú á dögunum náði ég að klára takmarkið sem ég setti mér fyrir árið 2009. Það var að fara í 30 gönguferðir á fjöll á þessu ári í tilefni þess að í september verð ég búinn að lifa í jafn mörg ár.

 

28. Krafla

sunnudaginn 26. júlí var ég á ferð í Mývatnssveit með henni Borghildi. Við röltum á fjallið Kröflu (813m). Gönguhækkun er u.þ.b. 210m. Þetta var frekar átakalítið og þægilegt rölt en gott útsýni á toppnum.

 

29. Vindbelgjafjall

Mánudaginn 27. júlí vorum við Borghildur enn í Mývatnssveit. Þá varð fyrir valinu fjall sem nefnist Vindbelgjafjall (524m) og er frekar áberandi í landslaginu við Mývatn. Gönguhækkun er u.þ.b. 240m. Þetta er alveg sérstaklega túristavænt fjall með bílastæði og svo göngustíg alla leið upp á topp. Á leiðinni rákumst við á fólk af erlendu og íslensku bergi brotið. Útsýni var meðal annars yfir Mývatn.

 

30. Kirkjufell

Þriðjudaginn 28. júlí ákváðum við Bogga að fara á í ferðalag um Snæfellsnes. Um kvöldið keyrðum við til Grundarfjarðar og tjölduðum þar. Morguninn eftir fórum við svo á Kirkjufell (463m) eftir að hafa ráðfært okkur við tjaldvörð um leiðarval. Toppurinn á fjallinu var hulinn þoku en við skelltum okkur upp þrátt fyrir það. Þetta fjall hafði verið á dagskrá hjá mér undanfarið enda sérstaklega vígalegt og tilkomumikið. Veðurskilyrði voru nokkuð hagstæð til fjallaferða þennan daginn. Það er alveg hægt að segja að þetta ferðalag sé ekki fyrir lofthrædda en mér finnst þetta með mest spennandi fjöllum sem ég hef tekist á við. Best er að halda sig sem mest á hryggnum sem snýr að veginum. Mest alla leiðina er verið að klöngrast eftir klettum og hliðra sér svo eftir þörfum. Sé farið of langt út frá hryggnum geta menn lent í ógöngum og sjálfheldum. Þar sem við höfðum ekki farið þetta áður tók okkur svolítinn tíma að velja rétta leið. Á einum stað fórum við of langt til hægri og komum svo að frekar bröttum klettavegg en fyrir ofan var kaðall. Ekki leist okkur alltof vel á að príla þennan vegg, enda frekar löng og brött brekka fyrir neðan og óvíst að fljótlegt hefði verið að stoppa sig ef eitthvað hefði klikkað upp að spottanum. Við fórum aftur til baka og fundum gáfulegri leið. Eftir einn stall í viðbót komum við að spotta til að auðvelda uppgönguna. Tveir spottar í viðbót voru á leiðinni áður en toppnum var náð. Að lokum var frekar mjór hryggur sem þurfti að ganga eftir. Þá var semsagt búið að toppa þennan tind. Fljótlega kom svo þokan, sem betur fer var hún ekki komin fyrr. Sama leið var valin til baka.

Uppgöngutími ca. 2 klst. og svipað niður aftur.

Mjög hressandi og skemmtileg fjallganga á glæsilegan tind 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vííí Glæsilegt fjall til að ná markinu með - Innilega til hamingju með þetta og svo er bara að halda áfram nóg eftir af árinu til að 2x þetta er það ekki hehe ;)

Frú Twist (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 19:38

2 identicon

jú jú nóg eftir af árinu. Fjallgöngum er ekki lokið

Eyþór Eðvalds (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband