17.6.2009 | 00:13
5 Tindar
Laugardaginn 6. júní fór ég í fjallgöngu á Vatnsnesfjalli. Ég hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara á 10 af toppum Vatnsnesfjalls. Ferðafélagarnir sem ég fékk með mér voru þeir Guðmundur Jónsson og hundurinn Baldur. Við fórum af stað frá vegi utan við Kárastaði kl 9 um morguninn. Fyrsti hóllinn sem við fórum á var Kjóafell (230m). Nokkuð þægileg byrjun það. Næst var Þorvaldsfjall (436m). Svo var farið ofan í Hlíðardal. Við þurftum að fara yfir þrjár ár á leiðinni, Dalkotsá, Tungukotsá og Guðdalsá. Sumar voru svo vatnsmiklar að fara þurfti úr skóm og sokkum til að komast yfir án þess að bleyta skóna. Gönguveðrið var bara nokkuð þægilegt, sól og smá gola. Næst var stefnan tekin á Hlíðarfjall (642m). Þokan var nú farin að nálgast okkur óþægilega. Gengið var niður í Grunnaskarð og þaðan á Miðfell (699m). Nú vorum við búnir að vera á göngu í svarta þoku sem var í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi. En sem betur fer vorum við vel græjaðir af rötunarbúnaði. Okkur tókst að finna Brandaskarð og þaðan röltum við á Brandafell (745m). Nú var tekin sú ákvörðun að hringa í föður minn og láta hann sækja okkur að Bergstöðum. Upphafleg áættlun gerði ráð fyrir að þetta yrði 10 toppa dagur en við létum hina fimm sem eftir vorum bíða betri tíma sökum þoku, þ.e.a.s. Háheiði, Þrælsfell, Sótafell, Grundarhlass og Sandfell. Þegar við komum niður á veg rétt utan við Bergstaði um fimmleitið höfðum við lagt að baki u.þ.b. 20km á átta tímum. Hressandi fjallarölt þrátt fyrir að ná ekki að klára takmark dagsins. En veðrinu stjórnar maður víst ekki.
23 fjallgöngur á árinu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.