21.1.2009 | 23:29
Unglingadeildarferð 18.1. 2009
Síðasta sunnudag var farið í ferð með unglingadeild bjsv. Húna upp að Káraborg. Við mættum í Húnabúð kl 9 um morguninn og fljótlega fóru þátttakendur að tínast í hús. Þeir félagar sem fóru voru Eyþór Kári Eðvaldsson, Pétur Arnarson og Guðmundur Jónsson. Níu unglingar fóru með okkur. Kynjahlutfallið var frekar óvenjulegt, 7 stelpur og 2 strákar. Við fórum á tveimur bílum upp að Helguhvammi og gengum þaðan upp að Káraborg. Þegar gangan hófst var klukkan hálf níu og ennþá myrkur. Veðrið var rólegt. Til öryggis var ákveðið að fara með annan bílinn upp að Káraborg. Gangan tók tæplega einn og hálfan tíma. Uppi á Káraborg áttu að fara fram sigæfingar. Byrjað var á að útbúa tryggingar og græja línu í frekar auðveldri brekku með litlum halla til að byrja á, því fæstir höfðu sigið áður. Þegar allir höfðu æft sig þar stilltum við upp línu sunnar í vestari borginni á stað sem var meira krefjandi. Eftir því sem leið á daginn fór að hvessa frá norðaustri. Eftir nokkrar góðar ferðir var ákveðið að færa sig og stilla upp einu sinni enn og núna skildi sigið af austari borginni. Eins og áður var nóg af góðum festum til að tryggja í. Við sigum austur af klettinum niður þverhnípt stuðlaberg. Aldeilis flottur staður fyrir svona æfingar. Um þrjúleitið var ákveðið að pakka saman og fara að koma sér heim. Flestir fengu far með bílnum niður en hinir röltu niður í Helguhvamm. Rétt fyrir fjögur voru allir komnir í Húnabúð eftir vel heppnaðan dag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.