12.1.2009 | 14:30
Spákonufell 11.1.2009
Í gær fórum við þrír félagar úr björgunarsveitinni Húnum á Spákonufell. Ég, Guðmundur Jónsson og Helgi Þór Kristjánsson. Spákonufellið er rétt norðan við Skagaströnd. Við hittumst í Húnabúð kl 8 og lögðum af stað rétt fyrir hálf níu. Kaffistopp á Blönduósi. Þegar við komum á staðinn þar sem við ættluðum að byrja gönguna náði ég að festa bílinn, sem kom ekki að sök því það var ekki orðið almennilega bjart og veðrið ekki glæsilegt. Þegar búið var að losa bílinn var ákveðið að reyna við fellið enda veðrið heldur skárra. Þá var klukkan hálf tólf. Gangan hófst við þjóðveginn vestan við fellið. Snjór og vindur gerðu það að verkum að gangan gekk frekar hægt. Stefnan var tekin á skarð sem er norðan við klettaborgina, en leiðin þangað er nokkuð jöfn brekka meðfram girðingu. Svo var ákveðið að reyna uppgöngu sunnan megin. Þegar stutt var að klettaborginni tók við skafl og þá þurfti að beita broddum og öxum til að komast örugglega yfir. Næst var príl upp kletta og loks stóðum við allir þrír á toppnum. Það var hvasst á toppnum og ekki gott skyggni, en mér skilst að þetta eigi að vera góður útsýnisstaður. Við vildum helst ekki þurfa að fara sömu leið niður svo við fórum niður eftir hrygg að norðan. Sú leið virðist vera algengasta leiðin, a.m.k. er hún stikuð. En leiðin sem við fórum upp er miklu skemmtilegri og líka styttri. Það er alveg spurning að fara þetta aftur í betra veðri og hafa meira útsýni.
Hæð 639 m
Hækkun 610m
Uppgöngutími 2,5 klst.
Samtals (upp og niður) 4 klst.
Göngulengd ca. 3 km.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.