Tveir menn og einn hundur - á skíðum

Ég skrapp á Hvammstanga í gær. Í dag fórum við feðgar á skíði. Um hálf tólf vorum klárir, svo við örkuðum af stað  frá Garðavegi 23. Hundurinn Baldur var staddur á Garðavegi 19 svo mér datt í hug að bjóða honum með. Hann þáði það með þökkum. Ég þorði ekki öðru  en að hafa hann í bandi á leiðinni út af staðnum. Ég vildi ekki eiga það á hættu að hann færi að flaðra upp um fínar frúr eða aðra saklausa vegfarendur sem við mættum. Það var reyndar bara fínt fyrir mig að hafa hann í bandi því hann dró mig á fleygiferð í gegnum staðinn. Svo sleppti ég honum lausum við sláturhúsið.

Fyrir utan Lindarberg mættum við hlaupara. Pabbi fór strax að kalla á Baldur svo hann myndi ekki trufla hlauparann sem er ekki hár í loftinu og hefði getað kastast út fyrir veg ef baldur hefði stokkið á hann á fullri ferð. Þegar við svo mættum honum fannst mér hann vera frekar skrýtinn á svipinn, enda hefur hann sennilega ekkert skilið í þessum hrópum og köllum í föður mínum. Hann heitir nefnilega líka Baldur. Skíðafærið var ekkert til að hrópa húrra fyrir en þetta svona rétt slapp. Skyggnið var ekki mikið. Við Kárastaði hittum við Guðmund Vil sem sagði okkur að hann ættlaði að keyra Vatnsneshringinn á olíubílnum sínum, víst að færið væri svona gott. Við höfðum ekkert við það að athuga og skíðuðum áfram.

Það er ótrúleg orka í hundinum Baldri. Hann getur hlaupið allt í kringum okkur á meðan við göngum án þess að blása úr nös. Þegar við vorum komnir aðeins út fyrir Kárastaði fannst föður mínum nóg komið og pantaði bíl. Þannig að við snérum við en mættum svo mömmu fljótlega sem var komin til að sækja pabba. Við Baldur afþökkuðum farið og löbbuðum sömu leið til baka. Við lentum í snjókomu, en veðrið var u.þ.b. SV 8 m/s og -3°C. Ég reyndi að hraða mér svo ég kæmist í pottinn í sundlauginni. Fyrir náð og miskun Sveins Sundlaugarvarðar var mér hleypt inn þó að klukkan væri aðeins meira en hálf tvö. Pabbi var mættur í pottinn. Það er alveg magnað að slaka svona á eftir hressandi skíðaferðir. Ég og hundurinn Baldur höfðum gengið rúmlega 10 km á tveimur tímum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hehe þetta hefur verið snilldar ferð fyndið þetta með Baldur hehe.. og þið eruð alveg magnaðir, hefði verið til í að vera með! verð að fara að kíkja á skíði 

Litla sys (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 12:25

2 identicon

Bíð spenntur eftir nýrri færslu! Annars allt gott að frétta frá Köben, það væri nú tilvalið að kíkja til okkar í kaffi og slappa af á Íslandsbryggju. Bestu kveðjur, Addi

Addi (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband