15.1.2008 | 19:09
Keilir - sunnudagur 13.1.2008
þá var komið að keilisferð. Ég var búinn að horfa á þetta fjall í allt haust á ferðum mínum á milli Reykjavíkur og Keflavíkur og fannst ég eiginlega verða að fara á það. Svo núna á sunnudaginn skellti ég mér .Það tók ca. hálftíma að keyra að Höskuldarvöllum þar sem venjulega er byrjað að ganga, en beygt er af Reykjanesbraut við Kúagerði. Þrír bílar voru komnir á bílastæðið á undan mér, tveir jeppar og einn fólksbíll. kl 11:30 rölti ég frá bílnum. Leiðin að fjallinu liggur um hraun og tók ca. 40 min að fjalli, en 25 min upp á topp. Þegar ég var hálfnaður upp gekk ég fram á tvær stelpur sem voru hluti af 12 manna gönguhóp frá Menntaskólanum í Kópavogi. Það er ekki slæmt að fá einingar í framhaldsskóla fyrir að rölta á fjöll. Leiðin upp er eftir göngustíg nánast allan tímann en þetta er nokkuð bratt og betra að fara varlega. Útsýnið var alveg þokkalegt, m.a. yfir Snæfellsjökul. Það hefði samt mátt vera aðeins bjartara, en það er víst bara janúar ennþá. Þegar búið var að fá sér kaffi, skrifa í gestabók og taka nokkrar myndir lá leiðin niður á við. Þetta gekk allt saman vel, en á miðri leið niður fjallið tók ég fram úr krökkunum, en þau þurftu svo mikið að spjalla. Samtals tók gangan tvo tíma og 20 min. kl 13:50 kom ég aftur að bílnum. Veðrið var fínt, stillt en nokkurra stiga frost. Þetta var hin ágætasta ferð á fallegt fjall.
Ennþá var nóg eftir af deginum svo ég ákvað að keyra eftir jeppavegi sem liggur upp á Oddafell. Vegurinn liggur eftir hrygg á fjallinu sem er sumsstaðar frekar mjór svo það var betra að fara varlega, brattar skriður báðum megin svo ekkert mátti út af bera. En þarna uppi er alveg ágætis útsýni.
Hér kemur smá fróðleikur um Keili.
Hæð: 379m, hækkun: 250m. Fjallið er leyfar af bergstandi, sem sívalar eða ílangar gíg- eða gosrásarfyllingar úr basalti eða líparíti sem eftir standa þegar eldfjöll veðrast í burtu. Að öðru leiti er fjallið úr móbergi.
(Sjá myndir í möppunni Keilir)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.