2.12.2007 | 21:10
Á hjóli á Reykjanesi
Jæja þá var kominn tími á að fara út og hreyfa sig aðeins. Ég ættlaði rölta á eitthvað fjall og þá var ein hugmyndin að fara á Keili, en þar sem margir eru í próflestri eða uppteknir í einhverju öðru fann ég engann göngufélaga á þessu landssvæði. Þá var bara að taka hjólið og leiða það út úr íbúðinni. Eftir að vera búinn að skoða kort og finna einhverja leið sem væri hæfilega löng miðað við árstíma var ákveðið að hjóla út á Reykjanestá.
Áættlunin var Keflavíkurflugvöllur - Garðskagaviti - Sandgerði - Stafnes - Sandgerði - Keflavík, en vegna veðurs og hversu lítið var eftir af birtu ákvað ég að sleppa Stafnesi. Kanski verður það tekið á góðum degi síðar. Veðrið var ekkert mjög þægilegt, N 12 m/s og tveggja stiga hiti en bjart. Þessi blanda var til þess að mér var frekar kalt á tám og höndum. Á milli flugstöðvar afleggjarans og Garðs og á Miðnesheiðinni frá Sandgerði var svo hvasst að ég þurfti að halda fast í stýrið svo vindurinn feykti mér ekki út af kantinum, en tvisvar þurfti ég að fara inn á kantinn aftur.
Fyrra stoppið var við Garðskagavita. Þar tók ég nokkrar myndir af báðum vitum. Það eru tveir vitar á Garðskaga. Sá eldri þótti um tíð með bestu vitum landsins því hann stóð lágt og þoka því ekki til vandræða. Vitinn þótti hins vegar vera í hættu vegna landbrots og í miklu brimi sást vitinn ekki fyrir sjóroki. Hann var byggður árið 1897. Nýr viti var byggður á Garðskaga árið 1944. Yngri Garðskagavitinn er hæstur vita Íslands 28,6 metrar á hæð.
Fjaran við Garðskaga er þekkt fyrir fjlölbreytt fuglalíf og þá sérstaklega á vorin og haustin þegar margir farfuglar eru á leið til eða frá norðlægari slóðum. Ég rakst þarna á æðarkolluhóp sem stundaði sundæfingar við vitann.
Seinna stoppið var við höfnina í Sandgerði. Þar er staðsettur gulur viti. Þessi viti var byggður árið 1921 sem innsiglingarviti fyrir Sandgerðishöfn. Árið 1945 var hann svo hækkaður um 10 m. Vitinn er 22m hár og ljóshæð 25m. Árið 1916 var fyrri vitinn byggður. Vegghæðin var 3,7 m og með lágu risþaki. Núverandi viti er sambyggður öðru húsi en handrið hans minnir á varðturn í kastala.
Eftir stutt myndastopp var svo hjóluð beinasta leið (eftir vegi) til Keflavíkurflugvallar. Heildar ferðatími var á tímabilinu 13:14 til 16:08 og heildar vegalengd 36km. Veðrið var eins og fyrr segir frekar kuldalegt en samt sem áður hressandi að fara út og fá sér súrefni.
Heimildir: reykjanesguide.is
Ég setti nokkrar myndir í möppuna Reykjanestá 2.12.2007
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.