Reykjaneshringur á föstudegi

 

Í dag tók ég rúnt um Reykjanesið. Við fórum á jeppanum mínum ég og skólafélagi minn hann Ingimundur, en hann er innfæddur Keflvíkingur og því kunnugur á þessum landshluta. Við fórum frá Keflavík rétt fyrir þrjú og vorum komnir til baka u.þ.b. þrem tímum síðar, en þá var farið að dimma. Veðrið var haustlegt eins og við var að búast, en prýðisferð þrátt fyrir það.

Við byrjuðum á að keyra að brú sem liggur milli tveggja heimsálfa, þessi brú er upp af Sandvík.  Þarna er því hægt að ganga milli tveggja heimsálfa (jarðfræðilega séð) sem við að sjálfsögðu gerðum. Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka.

Næst var keyrt í Sandvík sem er vinsæll áningastaður ferðafólks. Þetta er flottur staður með mikilli sandfjöru. Þessi staður var notaður við tökur á  Clint Eastwood myndinni Flags of our fathers sumarið 2005. Ég væri til í að koma þangað aftur í sól og sumri.

Þar á eftir var Reykjanesviti skoðaður að utan. Fyrsti viti landsins var tekinn í notkun á Valahnúki á Reykjanesi 1878, en hann var byggður á bjargbrúninni úr tilhöggnu gróti. Hann skemmdist nokkrum árum síðar í jarðskjálfta en var svo endurnýjaður árið 1897. Núverandi viti var svo byggður á Bæjarfelli 1907-1908 í 73 m. y.s.m. Við lögðum bílnum við húsið sem er neðan við vitan og gengum svo upp tröppur sem búnar eru til úr grjóthellum. Hægt er að styðja sig við grænann kaðal á leiðinni.

Síðan lá leiðin að Brimkatli, sem er sérkennileg grótskál í fjörunni og líkist helst heitum potti. Sagan segir að tröllskessa hafi notað þennan stað til að baða sig. Þetta virtist ekki vera árennilegur staður til baðferða í dag þegar stórar öldur komu á fleygiferð og skullu á klettunum.

Að lokum var tekinn rúntur í grindavík, keyrðum niður að höfn þar sem björgunarsveitin Þorbjörn var að æfa sig.

(Sjá myndir í Reykjaneshringur)

 

Heimildir

www.nat.is

www.reykjanes.is

www.myndabanki.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Eyþór minn. Gaman að lesa hjá þér ferðasögurnar og sérstaklega skemmtilegt þegar þú blandar inn í  frásögnina gömlum þjóðsögum og fróðleik. Bíð spenntur eftir nýjum færslum. Bestu kveðjur frá Danmörku, Addi

Arnar Birgir (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 16:33

2 identicon

Já sæll Addi. Gaman að sjá hversu miklir möguleikar alnetsisns eru, að hægt sé að lesa það sem annar skrifar í örðu landi (smá grín). Ég er einmitt að fara að henda inn nýrri færslu núna.

Bestu kveðjur frá Íslandi, Eyþór

Eyþór Kári (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband