Færsluflokkur: Bloggar

Efstadalsfjall og Mosfell

Fyrr í sumar var ég að vinna í Reykholti í Biskupstungum. Mér tókst að plata vinnufélaga minn hann Ástvald til að koma með mér í tvö kvöld rölt eftir vinnu. Fyrra kvöldið fórum við á Efstadalsfjall (627m). Síðasta spölinn gengum við í svarta þoku svo útsýnið var ekki neitt. Kvöldið eftir fórum við á Mosfell (234m). Við fengum ágætt útsýni yfir Skálholt, Apavatn og Hvítá. Á leiðinni niður kom þoka. Hún hefur verið ótrúlega mikið á ferðinni á sömu fjöllum og ég undanfarið.


Brekkukambur

í júní fór ég á fjallið Brekkukamb (649m) sem er norðan megin í Hvalfirði. Með í för voru Helga, Vignir, Stebbi og Hrafnhildur. Við fórum frá Reykjavík fljótlega eftir kvöldmat og keyrðum fyrir Hvalfjörð. Svo var gangið af stað frá hvalstöðinni. Frekar þægilegt fjall. Flatt á toppnum.


Miðfellstindur (1430m)

Um síðustu helgi var farin Flubbaferð á Miðfellstind. Við fórum af stað kl 19 á föstudeginum frá Fluvallarvegi. kl 00:30 gengum við af stað frá tjaldstæðinu í Skaftafelli. Kl 4 vorum við komin inn í Kjós eftir 12,5 km göngu. Þar settum við upp tjaldbúðir og sváfum í nokkra klukkutíma. um tíu leitið um morguninn var aftur farið af stað. Toppnum náð kl rúmlega 15. Þoka var á toppnum og þar af leiðandi ekkert um útsýni. Leifur Örn var kominn upp á undan okkur með hóp frá Fjallaleiðsögumönnum. Á leiðinni niður mættum við litlum hóp á eigin vegum. Allt gekk stóráfallalaust fyrir sig hjá okkur fyrir utan að Mæja gerði heiðarlega tilraun til að detta ofan í srungu. Kl hálf sjö um kvöldið komum við aftur að tjaldbúðum. Tjöldin voru tekin saman og gengið fyrir Skaftafellsheiði. Kl 23 vorum við komin á tjaldstæðið í Skaftafelli eftir 14 tíma göngu þann daginn. Kjöt var grillað því allir voru orðnir svangir eftir gönguna. Svo var tjaldað og sofið. Nýr dagur tók á móti okkur með sól og blíðu. Á heimleiðinni var komið við á Kirkjubæjarklaustri til að fara í sund og snæða pizzu. Svo var stoppað í vík og keyrt upp á Gyldarhól, þaðan var gott útsýni yfir Reynisdranga og Dyrhólaey. Milli fimm og sex seinni partinn á Sunnudeginum vorum við komin í Borgina.

24. toppur - sex eftir.   


5 Tindar

Laugardaginn 6. júní fór ég í fjallgöngu á Vatnsnesfjalli. Ég hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara á 10 af toppum Vatnsnesfjalls. Ferðafélagarnir sem ég fékk með mér voru þeir Guðmundur Jónsson og hundurinn Baldur. Við fórum af stað frá vegi utan við Kárastaði kl 9 um morguninn. Fyrsti hóllinn sem við fórum á var Kjóafell (230m). Nokkuð þægileg byrjun það. Næst var Þorvaldsfjall (436m). Svo var farið ofan í Hlíðardal. Við þurftum að fara yfir þrjár ár á leiðinni, Dalkotsá, Tungukotsá og Guðdalsá. Sumar voru svo vatnsmiklar að fara þurfti úr skóm og sokkum til að komast yfir án þess að bleyta skóna. Gönguveðrið var bara nokkuð þægilegt, sól og smá gola. Næst var stefnan tekin á Hlíðarfjall (642m). Þokan var nú farin að nálgast okkur óþægilega. Gengið var niður í Grunnaskarð og þaðan á Miðfell (699m). Nú vorum við búnir að vera á göngu í svarta þoku sem var í sjálfu sér ekkert sérstaklega spennandi. En sem betur fer vorum við vel græjaðir af rötunarbúnaði. Okkur tókst að finna Brandaskarð og þaðan röltum við á Brandafell (745m). Nú var tekin sú ákvörðun að hringa í föður minn og láta hann sækja okkur að Bergstöðum. Upphafleg áættlun gerði ráð fyrir að þetta yrði 10 toppa dagur en við létum hina fimm sem eftir vorum bíða betri tíma sökum þoku, þ.e.a.s. Háheiði, Þrælsfell, Sótafell, Grundarhlass og Sandfell. Þegar við komum niður á veg rétt utan við Bergstaði um fimmleitið höfðum við lagt að baki u.þ.b. 20km á átta tímum. Hressandi fjallarölt þrátt fyrir að ná ekki að klára takmark dagsins. En veðrinu stjórnar maður víst ekki.

 

23 fjallgöngur á árinu 


Þriggja toppa kvöld

Í gær ég fór ég í skemmtilega kvöldgöngu með herra og frú Tvist. Ég sótti þau í Grafarvoginn um kl hálf níu og fór svo með þau í Mosfellssveitina. Við gengum frá Þingvallavegi í suður upp á topp Helgafells (215m). Samkvæmt klukku Hrafnhildar vorum við 19 mínótur upp á topp. Mjög svipuð leið var valin til baka. Næst var stefnan tekin á Grímmannsfell, sem samkv. mínum skilningi eru tvö fell, Stórhóll (482m) og Kolhóll (456m) (Stórhóll og Kolhóll ATG, Háihnúkur og Hjálmur LMÍ). Við vorum komin í borgina um hálf 1. Hressandi ferðalag.

18


Hvannadalshnúkur

Ég gerðist leiðsögumaður á fjalli um síðustu helgi. Ferðafélag Íslands var með 80 manna hvítasunnuferð á Hvannadalshnúk undir styrkri stjórn Haraldar Arnar Ólafssonar sem stundum er kenndur við póla. Við vorum 11 leiðsögumenn. Ættlunin var að fara upp á laugardagsmorgni, en vegna óhagstæðrar veðurspáar var ákveðið að fresta för til sunnudagsmorguns. Í hádeginu á laugardeginum fór ég austur ásamt fleiri leiðsögumönnum. Ferðin í Svínafell tekur fjóra tíma. Þar komum við upp tjaldbúðum. Farið á fætur kl 3. Gangan hófst frá Sandfelli kl 4:20. Veðurfræðingar höfðu lofað okkur góðu veðri en það gekk ekki alveg eftir. Allskonar sýnishorn voru í boði, þoka, slydda, él og rigning í lokin. Ekkert útsýni var á toppnum, en það er alltaf viss sigur fyrir fólk að ná þangað upp. Síðustu menn voru 14,5 tíma upp og niður. Fékk far með Haraldi og Örlygi í borgina um kvöldið, komnir rétt fyrir miðnætti.

15. fjallaferðin mín á árinu


Sunnudagsbíltúr um Reykjanes

Í gær fórum við Bogga í bíltúr um Reykjanesið. Skoðaðir voru nokkrir áhugaverðir staðir og í leiðinni röltum við á nokkur fjöll af minni gerðinni. Fyrsta fjallið var Sýrfell (96m) sem er norðaustan við Reykjanesvirkjun. Næst var Festarfjall (190m) sem er skammt austan Grindavíkur og rís þverhnípt úr hafi. Síðasti toppurinn sem við fórum upp á var svo Stapatindur (397m) sem er norðvestan við Kleifarvatn. Þó að þetta séu ekki mjög há fjöll þá eru þetta alveg þokkalegir útsýnishólar þar sem Reykjanesið er ekki mjög hátt. Veðrið var alveg dásamlegt.

14 fjöll á þessu ári


Hvannadalshnúkur maí 2009

Nýliðarnir í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík fóru Sandfellsleið á Hvannadalshnúk (2111m) laugardaginn 9. maí. Við fórum frá Reykjavík kl 20:03 á föstudagskvöldinu. Cirka 5 tímum síðar komum við að Sandfelli þaðan sem við ættluðum að ganga. Planið var að hefja gönguna kl 01:30 um nóttina en vegna hvassviðris ákvað Matti að fresta för þangað til um morguninn. Við tjölduðum þrem tjöldum en Matti lagði sig í svefnpokanum sínum undir berum himni. kl hálf sex komu einhver hljóð frá foringjanum sem þýddu að allir ættu að fara á lappir. kl 7 var gengið af stað. Veðrið var mjög gott. Sandfellsleiðin er mikið gengin og slóð er farin að myndast. Eins og lög gera ráð fyrir gengum við í línu eftir að komið var á jökulinn. Veðrið hélst áfram ágætt þó það kólnaði eftir því sem ofar dró. Útsýnið var nokkuð gott yfir sunnlenskar fjörur. Nokkuð samfelld hækkun þangað til við komum í 1800m hæð, en þá tók við nokkuð löng slétta með lítilli hækkun. Lokahækkunin er svo ekki fyrr en komið er að sjálfum Hnúknum, 300m hækkun 30-45°. Áður en Hnjúkurinn var tekinn tókum við af okkur bakpokana. Heildar tími á toppinn tók 7,5 klst. Fullmikið var um ský þegar upp var komið en það rofaði til á leiðinni niður. Að vanda voru teknar toppamyndir, og nokkrar þar sem mannskapurinn var ber að ofan með tilheyrandi öskrum. Þeir sem voru komnir upp á undan okkur virtust hálf undrandi á þessu athæfi. Sama leið var farin til baka. Við mættum mörgum línum á leiðinni. Kl 7 vorum við komin niður eftir 12 tíma göngu samtals. Góður dagur á fjöllum.

fjall  11


Eyjafjallajökull 3.maí 2009

Sunndaginn 3. maí fór ég á Eyjafjallajökul (1666m). Þetta var ferð á vegum FÍ fyrir starfsmenn Símans og gesti. Þeir voru 25 og fjórir leiðsögumenn. Ég var semsagt einn af þessum leiðsögumönnum, en hinir voru Örlygur Steinn, Hjalti Björnsson og Stefán P Magnússon. Mæting við hús Fí við Mörkina kl 7.10 um morguninnn og brottför kl 7.30 Farið var með rútu. Rétt fyrir kl 10 hófum við gönguna frá Seljavöllum. Fyrsta brekkan er nokkuð drjúg svo það var um að gera að fara nógu hægt af stað. í u.þ.b. 800m hæð vorum við komin á jökul og þá var hópnum skipt upp í fjórar (síma) línur. Á jöklinum var skyggnið ekki meira en 100 metrar. Greinilega hafði fleirum dottið í hug að ganga á jökulinn þennan dag, en ég giska á að það hafi verið cirka 100 manns á fjallinu. Síðasta spölinn upp á topp var veðrið farið að versna. skyggnið á toppnum var mjög lítið og hríð. Leiðin upp tók 6,5 klst. Toppamyndirnar sem voru teknar hefðu getað verið teknar á hvaða snjóskafli sem er. Sökum veðurs var lítið stoppað og við flýttun okkur niður aftur. Eftir 300 metra lækkun vorum við komin í mun skárra veður. Eins og oft gerist vorum við mun fljótari á leiðinni niður eða þrjá tíma. Komum við á kjúklingaborgarastaðnum KFC á Selfossi á leiðinni í borgina. Hressandi ferð þó skyggnið hefði alveg mátt vera betra.

fjall 10

 


Strútur 1.maí 2009

Á verkalíðsdaginn vorum við Bogga stödd í Húsafelli í sumarbústað sparisjóðsins á Hvammstanga hjá foreldrum mínum. Veðurspáin var í blautari kantinum fyrir helgina, en átti samt að vera þurrari á föstudeginum. Ég, Bogga og Magnús bróðir minn ákváðum að rölta á fjallið strút. Við keyrðum sem leið lá fram hjá Kalmanstungu í áttina að Surtshelli. Vegurinn var blautur á köflum en við komumst samt alveg nógu nálægt á bílnum. Við fylgdum háspennustrengnum af stað. Rétt ofan við gil bæjarlæksins fórum við yfir bæjarlækinn, svo var Neðri öxl sem liggur vestur með fjallinu fylgt upp á topp . Uppi í miðjum hlíðum tóku við snjóbrekkur. Uppi á fjallinu er endurvarpsstöð og þangað liggur jeppavegur. Þetta er frekar þægilegt rölt og samfelld hækkun. Veður til göngu var þægilegt, en það var næðingur og kalt á toppnum. Gerðar voru tilraunir til að renna sér niður á bakaleiðinni, en snjórinn var full mjúkur. Þegar við komum aftur í Húsafell var mjög hressandi að skella sér í pottinn.

Göngutími samtals 3 klst.

Hæð 937m

hækkun u.þ.b. 600m

fjall nr.9


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband