Nokkur fjöll í sumar

Kjalfell 17/6 2010

Rauðkollur í Þjófadölum 18/6 2010

Snæfell norðan Vatnajökuls 24/7 2010

Dyrfjöll 25/7 2010


Hvannadalshnúkur 8. maí 2010

Leiðsöguferð fyrir fjallafélagið. Þrjár línur með hóp frá 365. Lagt af stað frá Sandfelli á laugardagsmorgni kl 3:40. Hálftíma síðar kom stór hópur frá Fí. Færið mjög gott. Veður og skyggni það besta sem ég hef fengið á þessum toppi. Heildargöngutími rétt rúmir 13 tímar. Fjórða ferð mín á Hvannadalshnúk.


Tröllakirkja

Laugardagur fyrir páska 2010.

Eyþór og Bogga 

3 tímar upp

2 tímar niður

Lagt af stað frá bíl við gamla þjóðveginn á Holtavörðuheiði kl 11. Komið niður aftur kl 16. Hittum Pabba og steinunni á skíðum á leiðinni niður

 

Hef ákveðið að breyta tímamörkum sýslufjallaverkefnis. Það er ekki lengur bundið við eitt ár.


Vestursúla

Laugardaginn 20.2 2010 fór ég á Vestursúlu (1089m) sem er í Botnssúlum. Vestursúla er hæsta fjall í Kjósarsýslu. Með í för voru þau Bogga og Stebbi Tvist. Við lögðum bílnum á bílastæðinu við Stórabotn. Það var kalt í veðri en aðstæður að öðru leyti fínar. Rétt fyrir ellefu gengum við af stað. Fyrst fylgdum við leggjabrjótsleið sem liggur frá Hvalfirði yfir að þingvöllum, en tókum svo stefnuna á Vestursúlu. Fjallið var hvítt af snjó og því eina vitið að setja á sig brodda, sem við gerðum. Á undan okkur var hópur á vegum Íslenksra fjallaleiðsögumanna. Leiðin upp tók u.þ.b. 3,5 klst. Á toppnum var útsýnið útrúlega gott (miðað við veðurspá). Sama leið farin til baka. Samtals tók ferðin cirka 6 tíma. Fínn leiðangur

Sýslufjallaverkefnið hefst

fimmtudaginn 18.2.2010 var farið á fyrsta toppinn í sýslufjallaverkefninu. Markmiðið er að fara á hæsta fjall í hverri sýslu á árinu 2010. í gær fórum við Bogga á Hákoll sem er í Bláfjöllum. Hann er hæsta fjall í Gullbringusýslu (580m). Það er auðveld og þægileg leið. Veðrið hentaði einkar til fjallgöngu, 10 stiga frost og stillt veður. Ferðin byrjaði við skíðaskála Fram og endaði þar líka. Upp: 40 mín, Niður: 40 mín. Samtals vegalengd u.þ.b. 2,5 km.

Góð upphitun fyrir næstu fjöll.


Mælifellshnjúkur

Laugardaginn 7. nóvember fór ég á Mælifellshnjúk í Skagafirði (1138m) ásamt Boggu, Dodda og Guðmundi J. Við fórum af stað um kl 11 og komum niður 3,5 tímum síðar. Við fórum stikuðu leiðina frá Mælifellsdal. Veðrið var þokkalegt, en kalt. Skyggnið ekki alveg það besta. Þegar við vorum komin niður hafði skyggnið batnað mikið. Við sáum eina rjúpnaskyttu á leiðinni upp. Þetta er nokkuð þægileg ganga, ekki sérstaklega erfið eða hættuleg.

Afmælisfjallganga

Síðasta laugardag tók ég rölt upp á Þrælsfell í tilefni afmælis míns 5. sept sl. Þetta var 10 manna ferð og hundurinn Baldur. Veðrið var fínt. Uppi á fjalli var boðið upp á Kakó, kleinur og pönnukökur. Allir virtust koma sáttir til baka. Ég mæli með þessum stað fyrir afmælisveislur.


Nokkur fjöll

Ok sunnudagur 2. ágúst. Eyþór - Bogga

Skessuhorn laugardagur 15. ágúst. Eyþór - Bogga

Hlöðufell sunnudagur 16. ágúst. 4 tímar upp og niður. Eyþór - Bogga

Kerhólakambur (Esja) laugardagur 29. ágúst. Eyþór - Bogga - Sóley

Hekla sunnudagur 30. ágúst. Tæpir 4 tímar. Eyþór - Bogga - Stebbi - Hrafnhildur


Afmælistakmarki náð!

Nú á dögunum náði ég að klára takmarkið sem ég setti mér fyrir árið 2009. Það var að fara í 30 gönguferðir á fjöll á þessu ári í tilefni þess að í september verð ég búinn að lifa í jafn mörg ár.

 

28. Krafla

sunnudaginn 26. júlí var ég á ferð í Mývatnssveit með henni Borghildi. Við röltum á fjallið Kröflu (813m). Gönguhækkun er u.þ.b. 210m. Þetta var frekar átakalítið og þægilegt rölt en gott útsýni á toppnum.

 

29. Vindbelgjafjall

Mánudaginn 27. júlí vorum við Borghildur enn í Mývatnssveit. Þá varð fyrir valinu fjall sem nefnist Vindbelgjafjall (524m) og er frekar áberandi í landslaginu við Mývatn. Gönguhækkun er u.þ.b. 240m. Þetta er alveg sérstaklega túristavænt fjall með bílastæði og svo göngustíg alla leið upp á topp. Á leiðinni rákumst við á fólk af erlendu og íslensku bergi brotið. Útsýni var meðal annars yfir Mývatn.

 

30. Kirkjufell

Þriðjudaginn 28. júlí ákváðum við Bogga að fara á í ferðalag um Snæfellsnes. Um kvöldið keyrðum við til Grundarfjarðar og tjölduðum þar. Morguninn eftir fórum við svo á Kirkjufell (463m) eftir að hafa ráðfært okkur við tjaldvörð um leiðarval. Toppurinn á fjallinu var hulinn þoku en við skelltum okkur upp þrátt fyrir það. Þetta fjall hafði verið á dagskrá hjá mér undanfarið enda sérstaklega vígalegt og tilkomumikið. Veðurskilyrði voru nokkuð hagstæð til fjallaferða þennan daginn. Það er alveg hægt að segja að þetta ferðalag sé ekki fyrir lofthrædda en mér finnst þetta með mest spennandi fjöllum sem ég hef tekist á við. Best er að halda sig sem mest á hryggnum sem snýr að veginum. Mest alla leiðina er verið að klöngrast eftir klettum og hliðra sér svo eftir þörfum. Sé farið of langt út frá hryggnum geta menn lent í ógöngum og sjálfheldum. Þar sem við höfðum ekki farið þetta áður tók okkur svolítinn tíma að velja rétta leið. Á einum stað fórum við of langt til hægri og komum svo að frekar bröttum klettavegg en fyrir ofan var kaðall. Ekki leist okkur alltof vel á að príla þennan vegg, enda frekar löng og brött brekka fyrir neðan og óvíst að fljótlegt hefði verið að stoppa sig ef eitthvað hefði klikkað upp að spottanum. Við fórum aftur til baka og fundum gáfulegri leið. Eftir einn stall í viðbót komum við að spotta til að auðvelda uppgönguna. Tveir spottar í viðbót voru á leiðinni áður en toppnum var náð. Að lokum var frekar mjór hryggur sem þurfti að ganga eftir. Þá var semsagt búið að toppa þennan tind. Fljótlega kom svo þokan, sem betur fer var hún ekki komin fyrr. Sama leið var valin til baka.

Uppgöngutími ca. 2 klst. og svipað niður aftur.

Mjög hressandi og skemmtileg fjallganga á glæsilegan tind 


Vatnsneshringur 2009

Í gær var komið að því að hjóla vatnsneshring. Við vorum 4 sem fórum, þ.e.a.s. ég, Magnús Eðvalds Hrafnhildur og Stebbi Tvist. Kl 12:31 lögðum við af stað frá Söluskálanum á Hvammstanga. Bogga hjólaði með fram á Norðurbraut og snéri þá við. Stíf norðanátt var í bakið á okkur milli Hvammstanga og þjóðvegs 1. Í Línakradal fengum við svo vindinn á hlið en eftir að við komum á Vatnsnesveginn var vindurinn beint í fangið. Meðalhraðinn var ekki mjög hár austan við fjall sökum mótvinds. Ég hafði gert ráð fyrir kröftugum meðvindi þegar við kæmum fyrir nesið, en það hafði lægt mikið og var nánast komið logn. Við bræður þurftum aðeins að heilsa upp á afa okkar á Tjörn og drekka smá kaffi þar. leiðin vestan megin á nesinu var bara nokkuð auðveld miðað við streðið austan megin. Tæpum sjö og 1/2 tíma eftir að við lögðum af stað komum við aftur á Garðaveginn. Eftir hressandi hjólaferð var ekki ónýtt að skella sér í heitan pott í sundlauginni á Hvammstanga.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband